Heildartala yfir síðuflettingar

fimmtudagur, 10. júní 2021

Borðmottur

Þessar borðmottur eru minni en aðrar sem ég hef saumað, enda ætlaðar í húsbílinn okkar, þar sem matborðið er lítið. En þar sem plastdiskarnir og bollarnir eiga það til að renna aðeins til á borðinu þegar við fáum okkur að borða og hallinn á bílnum kannski ekki alveg réttur, þá þurfa að vera mottur.

Ég mældi út hvað þær þyrftu að vera stórar til að rúma það sem við notum, og eru þær 35 x 21 sm. Svo á ég þetta skemmtilega munstur í útsaumsvélinni, upplagt að nota það. Öll efnin, nema einlita hörefnið, voru keypt á bílskúrssölu í Grafarvoginum í vetur og vor. Þar keypti ég falleg efni í kílóavís á frábæru verði, alls konar gömul og nýleg efni úr Virku. Fór nokkrar ferðir, dugði ekki minna. Fékk slatta af Thimbleberries efnum, sem hafa alltaf verið í uppáhaldi hjá mér en eru hætt í framleiðslu.


 Svo stakk ég með nokkrum gerðum af bútasaumssporum sem eru í saumavélinni minni.

mánudagur, 31. maí 2021

Barnavettlingar


 Mér hættir til að gleyma að setja barnavettlinga hér á bloggið, sennilega af því að þetta er svo hversdagslegt og lítið verkefni. Ég á myndir af sokkum og vettlingum á barnabörnin sem aldrei hafa ratað hér inn, og þessum var ég næstum búin að gleyma. 

Við vorum að úti með ömmu- og afastrákinn og systur hans snemma í vor og þá sá ég að vettlingar sem ég hafði prjónað á hann eftir íslenskri uppskrift keyptri á netinu pössuðu engan veginn á hann, of víðir og hann tolldi ekki í þumlinum. Ég átti svo sem að geta sagt mér þetta sjálf þegar ég prjónaði þá. Ég greip því prjónana og notaði uppskrift frá Drops sem ég hafði áður aðlagað að yngstu ömmu- og afastelpunni og skrifað hjá mér allar breytingar. Passaði bara að hafa þá nógu litla og þennan þumal sem kemur út á hlið. Þannig þumlar eru bestir. Ég hef líka notað mjög góða uppskrift úr bókinni Leikskólaföt. Og viti menn, þessir vettlingar smellpössuðu á litla manninn. Þeir eru prjónaðir úr Drops Karisma.

Mér finnst yfirleitt erfiðast af öllu að prjóna vettlinga, ekki af því að prjónaskapurinn sé svo erfiður, heldur verða þeir að passa vel þeim sem á að nota þá, hvorki of víðir né þröngir, og mátulega langir.

þriðjudagur, 25. maí 2021

Bútasaumsteppi handa systrum

Þessi tvö teppi saumaði ég handa 4 ára og tæplega 6 ára ömmustelpum sem eru systur. Áður hafði ég saumað handa systkinunum sem verða bráðum 6 ára og 2 ára. Teppin þeirra eru neðar á síðunni. Teppið hér að ofan fékk sú eldri.

Þessi tvö teppi eru mjög lík, en það munar samt einu efni, ef grannt er skoðað. En ég vildi hafa þau mjög svipuð.

Dömurnar eru nýfarnar að sofa í koju, og teppin eru í fullri stærð, ca. 2,15 x 1,40. Merkimiðann saumaði ég í útsaumsvélinni minni góðu.

Efnin keypti ég á útsölu hjá Panduro þegar þau lokuðu fyrir rúmu ári síðan, og hafði þetta munstur í huga þegar ég keypti þau.

Þetta er teppi yngri systurinnar. Bakefnið keypti ég hjá Bóthildi. Sá það á síðunni hennar og var ekki lengi að ákveða mig. Skiptir miklu máli að hafa bakefni sem passar, sérstaklega á rúmteppum sem er verið að þvælast með.

Ég stakk í öll saumför, og síðan í kross yfir allt, notaði málningarlímband til að fá beinar línur og í þær stungur notaði ég Cotty 30 stungutvinna frá Pfaff.

Nú prýða teppin kojuna og fara mjög vel þar. Nú eiga öll barnabörnin rúmteppi í fullri stærð.


 Hér fyrir neðan er sýnishorn af teppunum þeirra allra. Ég reyndi að láta litaval passa hverju og einu.


miðvikudagur, 28. apríl 2021

Þrír prjónakjólar - Veslemor-tunika


Það kom að því að ég prjónaði þessa kjóla á stelputríóið mitt. Búin að eiga uppskriftina lengi í bókinni Klompelompe, strikk til baby, barn og voksen. Held að það sé fyrsta bókin þeirra. Langaði að prjóna þá fyrir þann aldur sem þær eru á núna, sú yngsta að verða fjögurra ára og tvær elstu að verða sex.


 Það var sérlega gaman að prjóna þá, byrjað efst og þess vegna gott að máta síddina. Ég notaði garnið sem gefið er upp í uppskriftinni, Dale Lille Lerke, keypt í A4, og prjóna nr. 3. Stærðirnar eru á 3-4 ára og 5-6 ára.

þriðjudagur, 20. apríl 2021

Veggteppi

Ég er alltaf hrifin af amerísku bútasaumskonunni Eleanor Burns. Þessi blokk er frá henni og heitir Rosebuds, eða rósaknúppar. Hún er í bókinni Egg Money Quilts.  Ég teiknaði hana upp í EQ8 bútasaumsforritinu til að geta ráðið stærðinni og saumað með pappírssaumi (kemur engum á óvart 😊). Blokkirnar eru 6,5 tommur á kant. Teppið allt er 37 x 37 tommur.


 

þriðjudagur, 13. apríl 2021

Fluffy Julie-genser


 Þessa peysu prjónaði ég á aðra tengdadótturina, að hennar beiðni. Hún er úr bókinni Klompelompe Strikkefest. Mjúk og hlý og fer henni mjög vel. Peysan er prjónuð úr Lanett og Silk Mohair frá Sandnes á prjóna nr. 5 í stærðinni XS.  Hún er frekar stutt og víð og ermarnar aðeins síðar.

sunnudagur, 4. apríl 2021

Páskahænur


Saumaði nokkrar páskahænur núna í dymbilvikunni. 


Sniðið er af heimasíðu Bernina.com/blog. Það kemur í þremur stærðum og notaði ég stærstu og miðstærðina, reyndar í 91% af réttri stærð því ég prentaði það í vitlausri stærð til að byrja með, en mér finnst stærðin á þeim nákvæmlega eins og ég vil hafa hana.


 

þriðjudagur, 30. mars 2021

Húfan Ösp

Um áramótin sá ég að húfan Ösp, sem ég prjónaði á litla ömmustrákinn fyrir ári síðan, var orðin alltof lítil svo ég prjónaði aðra í janúar. Hana hafði ég í stærðinni 1-3 ára, enda er hann að verða 19 mánaða. Ég prjónaði úr Drops merino extra fine og uppskriftin er frá Knillax. Dúskinn af gömlu húfunni endurnýtti ég.

 

fimmtudagur, 25. mars 2021

Bútasaumsteppi í bleiku


Ég gerði teppi handa ömmustráknum í fyrra að beiðni tengdadóttur minnar. Systir hans hafði tekið ástfóstri við teppi sem ég saumaði fyrir tuttugu árum handa eldri syni mínum og föðurbróður hennar. Það var orðið slitið svo það lá ljóst fyrir að hún yrði líka að eignast teppi.
   
Ég hafði það í fullri stærð eins og stráksins, það er þá bara sett tvöfalt yfir rúmið til að byrja með. Munstrið er líka þannig að það er sama hvernig það snýr. Sú stutta er fimm ára, að verða sex í sumar, og elskar allt bleikt og fjólublátt.

Ég stakk fyrst í öll saumför og stakk svo með löngum saumum á ská. Svo notaði ég málningarlímband til að fá beinar línur og það er bara snilld. Ég hef gert það áður, og það vinnst mjög vel þannig. Fór með eina og hálfa rúllu.

 Efnin keypti ég í Panduro í Smáralind fyrir rúmu ári þegar þau voru að loka versluninni. Ég keypti slatta af efnum sem passa vel saman í þetta munstur, sem ég held að heiti Sól og skuggi. Bakefnið keypti ég hins vegar í Bóthildi. Grófa stungutvinnan fékk ég í Pfaff, kemur vel út í teppinu. Mikilvægt að velja lit sem passar við alla bútana. Merkið saumaði ég í útsaumsvélinni minni góðu. 

þriðjudagur, 16. mars 2021

Húfur og hálskragar

Stelpurnar mínar stækka og þurfa ný föt. Ég hef prjónað húfu eftir þessari uppskrift á eina þeirra áður en hún er úr Klompelompe - Strikkefest og heitir Lillemors duskelue.

Ég náði ekki að mynda þær allar saman því sú síðasta var prjónuð þegar búið var að afhenda hinar tvær.

Kragarnir eru úr Prjónað af ást og heitir uppskriftin Hálskraginn Bella. Ég prjónaði úr Drops merino extra fine.


 Ein daman vildi ekki hafa dúsk á sinni húfu. Ég nota alltaf smelludúska, langbest að festa þá á og auðvelt að losa ef það þarf að þvo húfuna.

þriðjudagur, 9. mars 2021

Vettlingar

Eftir áramót prjónaði ég tvö pör af vettlingum. Herravettlingarnir eru eftir uppskrift úr litlu hefti sem Ístex gaf út þar sem lettnesk prjónamunstur eru aðlöguð að íslenska kambgarninu. Að sjálfsögðu notaði ég kambgarn og prjóna nr. 2,5 og prjónaði stærð L. Mér fundust þeir ætla að verða heldur langir svo ég stytti þá um hálft munstur eða sex umferðir og þurfti þá að teikna munstrið fremst á þeim aftur upp með nýrri úrtöku. En þeir smellpössuðu líka á eigandann.

Dömuvettlingarnir eru hins vegar upp úr nýju vettlingaprjónabókinni, Íslenskir vettlingar, sem kom út fyrir jólin og heitir uppskriftin Salka. Í þá notaði ég Drops Flora. Eigandinn er frekar handsmár svo ég notaði prjóna nr. 2,25, en þeir urðu heldur þröngir yfir hendina á móts við þumalinn, en passlega langir. Það er líka alltaf hættan þegar þumallinn er settur í án þess að aukið sé út við hann, þ.e. prjónaður kíll. Ég ætla að hafa það í huga í framtíðinni.


 

fimmtudagur, 18. febrúar 2021

Vesti


 Þetta vesti fékk lítill frændi minn sem fæddist í lok nóvember. Það var prjónað á ömmustrákinn minn fyrir jólin en reyndist of lítið og gerði ég annað á hann sem ég sýni hér aðeins neðar á síðunni. Stærðin er fyrir 12-18 mánaða, en nokkuð þétt prjónað hjá mér. Garnið er Drops baby merino og uppskriftin er frá Garnstudio.

fimmtudagur, 11. febrúar 2021

Husqvarna Viking Amber Air S 400

Í mörg ár var ég búin að horfa á Babylock overlockvélar á netinu sem gátu þrætt gríparana sjálfar með lofti og óskað þess að ég ætti svona vél. En þetta merki fæst ekki á Íslandi og þar með var málið úr sögunni. Þó Huskylock 936 vélin mín sé frábær, með mjög fallegt spor, saumaráðgjafa og stilli sjálf t.d. mismunaflutning og sporlengd eftir efnisgerð, þá var bara stundum rosalega erfitt og tímafrekt að þræða hana. Einstaka sinnum tókst það strax en oftar þurfti ég að gera nokkrar tilraunir. Þá miklar maður meira fyrir sér að þræða hana næst sem veldur því að hún er sjaldnar notuð og þá æfist maður minna í að þræða. Það kom oft fyrir að mér datt í hug að grípa hana, leit á tvinnann og sá að ég þyrfti að skipta og hætti við.

En...nú eru breyttir tímar, einkaleyfi Babylock á loftþræðingu er útrunnið og nú hafa aðrir framleiðendur sett þetta í sínar vélar. Fyrir um einu og hálfu ári sá ég að Husqvarna var komið með loftþrædda overlockvél. Ég trúði varla mínum eigin augum og vissi strax að ég myndi einhvern tíma kaupa mér hana. Ég beið samt aðeins og fylgdist með en fékk hana svo í lok september á síðasta ári í Pfaff.

Og hún er bara frábær!!  Ég byrjaði á að æfa mig í dúkkufatasaum, sem ég hefði aldrei gert á eldri vélinni minni. Gat meira að segja saumað stroffhring í hálsmál án vandkvæða. Ég bar saman vélarnar til að reyna að átta mig á af hverju þetta væri svona auðvelt á nýju vélinni og komst að því að hnífurinn sker heilum sentímeter nær nálunum en á gömlu vélinni og það munar öllu.

Núna er ég enga stund að græja vélina fyrir það sem ég vil sauma og skipti um tvinna eins og vindurinn. Hún er með nálaþræðara og fallegt spor sem ég þarf varla að stilla. Rúllufaldur þarf þrjár stillingar sem tekur fimm sekúndur að framkvæma. Og svo er hún bara svo falleg ❤️ Mér finnst það skipta máli.


https://youtube.com/playlist?list=PLvE6jwvXA4CFvqwi9kNxzxcBiCgTwE5Oy
 Hér er hægt að sjá mjög góð kennslumyndbönd fyrir vélina á Youtube.

sunnudagur, 7. febrúar 2021

Hárbönd


 Fyrir nokkrum vikum saumaði ég hárbönd á ömmustelpurnar þrjár. Þær eru allar með sítt hár og þurfa eitthvað til að halda hárinu frá andlitinu. Aðferðin við að gera þau er sýnd hjá @traadsnella á Instagram. Ég mjókkaði þau aðeins, skar þau 18 sm á breiddina og hafði þau ca. 3 cm styttri en ummál höfuðs, en þetta fer örugglega eitthvað eftir teygjanleika efnisins líka. Mitt efni teygist í meðallagi mikið. Fínt að nota í þetta afganga ef þeir eru til.

sunnudagur, 24. janúar 2021

Stripa

Eftir teppið í síðustu færslu hélt ég áfram að kíkja í körfuna sem geymir afgangana mína og í einum pokanum voru nokkrir hnyklar af Drops Air. Vinkona mín keypti fyrir mig norska bók í Ósló og langaði mig aðallega í hana út af einum trefli, þessum hér, og heitir uppskriftin Stripa.  Hann er einlitur í bókinni og prjónaður úr Drops Air.

Ég ákvað að nota bara afgangana í þetta og liggur við að mér finnist það bara flottara. Bókin heitir Sjal og skjerf. Strikking hele året. Hún er eftir Britta Mikkelborg. Ég byrjaði reyndar á að prjóna sjal upp úr henni og á örugglega eftir að nota hana meira. En trefillinn er mjög góður og notaður næstum daglega núna.


 

miðvikudagur, 20. janúar 2021

Dómínóteppi úr afgöngum

Fyrir nokkrum mánuðum flokkaði ég alla garnafganga vel eftir tegundum og setti í glæra poka. Ég á mikið af ungbarnagarni, og ég tók alla minnstu hnyklana og hafði þá sér og fylltu þeir alveg gráan ikea renniláspoka, eins og maður notar í eldhúsinu. Á aðventunni vantaði mig eitthvað að prjóna og greip þessa afganga og byrjaði að prjóna ferninga með dómínóprjóni, þar sem ekkert þarf að sauma saman. Ég átti nú alveg eins von á að ekkert yrði úr þessu en svona varð útkoman. Þetta er ekki stórt, 70x88 sm, en ömmustelpurnar tóku það til handargagns þegar þær voru hjá mér í vikunni og önnur þeirra lagði sig undir því. Garnið kláraðist alveg, pokinn er tómur, en ég bætti aðeins við rauða litinn í kantinum til að klára. 

þriðjudagur, 19. janúar 2021

Veski fyrir heyrnartól

Ég hef lengi ætlað að sauma svona veski fyrir símaheyrnartólin. Hver þekkir ekki að hafa heyrnartólin laus í töskunni eða hanskahólfinu í bílnum þar sem þau flækjast í það sem er þar fyrir. Þessi veski leysa málið. Saumaði núna eitt fyrir mig og annað fyrir eiginmanninn. Ég setti hring fyrir lyklakippu á þau en þess þarf ekki. Ég á haug af þessum tólum en setti þau sem ég nota mest í veskið. Læt hér fylgja tengil á myndband sem kennir aðferðina við saumaskapinn.


 

miðvikudagur, 13. janúar 2021

Náttkjólar og dúkkukjólar

Mig langaði að stinga náttfötum í jólapakka ömmubarnanna og þá kom í ljós að tvær af ömmustelpunum mínum, systurnar, vilja bara sofa í náttkjólum núorðið. Þess vegna var bara einfaldast að sauma þá sjálf og notaði ég sama snið og á leikskólakjólnum sem ég skrifaði um í síðustu færslu, Onion 20047. Efnið fékk ég í Föndru, lífræna bómull. Stærri kjólarnir eru í stærð 116 á fimm ára stelpurnar og sá minni í stærð 104 á þriggja ára dömuna. Þær sváfu allar þrjár í kjólunum sínum á jólanótt. Litli prinsinn fékk líka náttgalla en amma keypti hann.

Svo tilheyrði að sauma kjóla á dúkkubörnin í stíl. Sniðið af þeim er úr bókinni Sy og strikk dukkeklær eftir Anne Grethe Gaaserud.