Heildartala yfir síðuflettingar

mánudagur, 29. nóvember 2021

Gamall jólakrans

Þennan fléttaða jólakrans gerði ég fyrir mörgum árum, það eru áreiðanlega meira en þrjátíu ár síðan. Hann var hengdur upp á hurð um hver jól, en svo fannst mér hann orðinn eitthvað svo druslulegur, slaufan ljót og kransinn sjálfur orðinn eitthvað svo langleitur og siginn. Þess vegna eru nokkur ár síðan hann hefur verið tekinn fram.

En kransinn er uppáhalds hjá mér, svo ég ákvað að flikka aðeins upp á hann. Ég keypti passlega stóran hring, 25 sm í þvermál (fékk hann í Vaski á Egilsstöðum í sumar, en það er önnur saga). Svo festi ég hringinn á kransinn með nál og tvinna á nokkrum stöðum, svo nú er hann í fínu formi.

Þá var að laga slaufuna. Ég átti þetta efni og valdi að nota það því ég átti óspunninn tvinna í sama lit sem mig langaði að falda slaufuna með. Svo er auðvelt að skipta um slaufu ef mig langar að breyta til.

Slaufuna faldaði ég í minni frábæru Husqvarna Amber air overlockvél. Eins og ég hef sagt frá áður, þá er hægt að kaupa tvenns konar aukafótapakka fyrir vélina.  Í pakkanum fyrir skrautsauma (Embellishmennt feet kit) er snúrufótur, sem maður notar til að sauma snúrur inn í rúllufald til að fá alls konar áferð á faldinn. Snúran eða er þrædd í lítið op á fætinum og stýrir fóturinn svo öllu saman á meðan saumað er. Ég setti vír í kantinn á slaufunni til að geta formað hana. Maður verður samt að vanda sig vel með vírinn og passa uppá að hann fari rétt í og undir fótinn og flækist alls ekki í hnífnum. En……nú get ég búið til mínar eigin slaufur úr efnum sem ég vel sjálf og haft vír í kantinum! Frábært! Vírinn keypti ég í Bauhaus í jólaskrautsdeildinni, hann má ekki vera of stífur. Svo stillti ég vélina á rúllufald og setti óspunninn þráð í yfirgríparann og voilà.

                                         

  Svona leit ræfillinn út áður en ég lagaði hann til. 

 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli