Heildartala yfir síðuflettingar

fimmtudagur, 30. apríl 2020

Vesti


Það var kominn tími til að ömmustrákurinn, sem verður átta mánaða eftir 4 daga, fengi nýtt vesti.
Hann getur reyndar ennþá notað þau sem ég prjónaði í þriggja mánaða stærð, því þau teygjast.

Uppskriftin að þessu heitir NORD-vest og er frá hyggestrikk.dk.
Það er á níu mánaða.
Garnið er Lanett frá Sandnes, og prjónarnir nr. 3,5.

miðvikudagur, 22. apríl 2020

Alma, Víðir og Þórólfur


Þær hjá Prjónakistunni hafa boðið upp á samprjón á fb frá því snemma á tímum samkomubannsins.
Þær voru svo rausnarlegar að gefa uppskriftir, og eru enn að.
Þetta er það sem ég gerði í samprjóninu.
Þær nefna uppskriftirnar eftir þríeykinu okkar.
Fyrsta uppskriftin, sú hér að ofan, heitir Alma.
Prjónaði úr léttlopa á prjóna nr. 3,5. Urðu heldur litlir, hefði þurft nr. 4, en þeir voru líka gefnir upp í uppskriftinni.


Svo var það Víðir.
Þessir vettlingar eru úr tvöföldum lopa, á prjóna nr. 5. Ætla að þæfa þá.


Prufaði líka að prjóna þá úr afgöngum af Spuna.


Þá kom sokkauppskriftin Þórólfur.
Í hana ákvað ég að nota Robust sokkagarn sem ég hef lengi átt, og í munstrið afganga af Drops merino extra fine. Prjónastærðin var 3,5, og passa sokkarnir á stálpað barn.


Það síðasta sem ég prjónaði í þessu samprjóni í bili voru vettlingarnir Þórólfur.
Hér notaði ég sama garn og í sokkana og með sömu prjónastærð.
Ég gerði þá með ömmustelpurnar í huga og hafði eitt parið aðeins minna, en þurfti þá að breyta mynstrinu og hnoðaði saman annað sem minnti á það upprunalega.
Þarf eitthvað geyma þessa, eru á aðeins eldri en mínar eru núna.

föstudagur, 17. apríl 2020

Páskahænur


Fyrir páska skellti ég mér í verkefni sem lengi hefur staðið til að prófa.
Páskahænur.
Voða einfalt að sauma, grunnurinn er tveir ferningar, jafn stórir, ég hafði mína 6x6 tommur. Svo þarf filt í kamb og gogg, tróð og skóreimar.

Ég útbjó smá pakka handa barnabörnunum, þar sem ég setti hænu handa hverju þeirra, vettlinga úr síðustu færslu, ávaxtanammi og límmiða. Svo fórum við á tvo staði og hengdum á útidyrnar hjá þeim.
Mikið hlakka ég til þegar þessu covid 19 ástandi lýkur.

sunnudagur, 5. apríl 2020

Leikskólavettlingar


Ég fann hjá mér mikla þörf um daginn fyrir að prjóna úr afgöngum. 
Garnið mitt er flokkað eftir grófleika og efni, og ég greip poka með afgöngum úr Karisma og Lima frá Drops, og Lamaull frá Litlu prjónabúðinni.


Marga liti notaði ég upp til agna, prjónaði báða vettlinga í sama pari samtímis.
Ég náði að klára hér um bil allt sem var í pokanum, 265 grömm af garni, sem svarar til rúmlega 5 dokka.
Merkti svo alla með því að sauma merkimiða innan í, 14 stykki.


Uppskriftin er blanda úr ýmsum áttum, af Drops vefnum, Bændablaðinu og Leikskólafötum.
Ég vil hafa þumalinn þannig að ekki skipti máli á hvorri hendinni vettlingurinn er.
Prjónarnir voru nr. 3,5.

föstudagur, 3. apríl 2020

Snúrupokar


Í síðustu viku vantaði mig svo eitthvað til að sauma, svo ég bað vinkonu mína að lána mér snið sem hún á af snúrupoka.
Minni pokinn er gerður eftir uppskriftinni.
Eini feillinn sem ég gerði var að hafa of stíft flíselín í honum.
Annars er hann fínn fyrir ýmislegt smálegt, t.d. nett prjón.


Mig langaði að prófa aftur, gerði hann stærri. Skar kringum stiku sem ég á og kom fín stærð með henni.  Svo hafði ég þynnra flíselín. Mjög ánægð með útkomuna. Gat notað efni í vasann sem ég hef átt lengi en ekki notað. Snúruna í hann keypti ég í John Lewis í Edinborg fyrir mörgum árum.
Sniðið heitir Little Drawstring Bag frá Sarah J Patterson _designs.