Heildartala yfir síðuflettingar

fimmtudagur, 25. mars 2021

Bútasaumsteppi í bleiku


Ég gerði teppi handa ömmustráknum í fyrra að beiðni tengdadóttur minnar. Systir hans hafði tekið ástfóstri við teppi sem ég saumaði fyrir tuttugu árum handa eldri syni mínum og föðurbróður hennar. Það var orðið slitið svo það lá ljóst fyrir að hún yrði líka að eignast teppi.
   
Ég hafði það í fullri stærð eins og stráksins, það er þá bara sett tvöfalt yfir rúmið til að byrja með. Munstrið er líka þannig að það er sama hvernig það snýr. Sú stutta er fimm ára, að verða sex í sumar, og elskar allt bleikt og fjólublátt.

Ég stakk fyrst í öll saumför og stakk svo með löngum saumum á ská. Svo notaði ég málningarlímband til að fá beinar línur og það er bara snilld. Ég hef gert það áður, og það vinnst mjög vel þannig. Fór með eina og hálfa rúllu.

 Efnin keypti ég í Panduro í Smáralind fyrir rúmu ári þegar þau voru að loka versluninni. Ég keypti slatta af efnum sem passa vel saman í þetta munstur, sem ég held að heiti Sól og skuggi. Bakefnið keypti ég hins vegar í Bóthildi. Grófa stungutvinnan fékk ég í Pfaff, kemur vel út í teppinu. Mikilvægt að velja lit sem passar við alla bútana. Merkið saumaði ég í útsaumsvélinni minni góðu. 

1 ummæli: