Heildartala yfir síðuflettingar

þriðjudagur, 19. ágúst 2025

Cosmo

Ein ömmustelpan mín, hún Auður Katla, er mikill aðdáandi Sanrio karakteranna, og safnar þeim og ýmsu sem þeim tilheyrir. En hún er líka mjög skapandi stelpa og býr allt mögulegt til sem hún lærir á Youtube, og saumar á saumavél sem hún á sjálf ásamt bróður sínum, vél sem hin amma þeirra gaf þeim í vor.

Í sumar gerði hún þennan haus sem tilheyrir Cosmo úr Sanrio fjölskyldunni, en er hér karakter í Roblox leiknum Dandys World. Hún gerði hann alveg sjálf úr pappa sem var ekki auðvelt og var með alveg sér vinnuborð í bílskúr foreldra sinna. En hana vantaði hettubolinn sem persónan klæðist og bað mig um hjálp. 

Svo vel vill til að langamma hennar í móðurætt skildi eftir sig dálítið af ónotuðum efnum sem voru sett í mína vörslu og þar fann ég efni í peysuna. Þetta var samvinnuverkefni okkar Auðar, ég tók upp snið, hún klippti út, en ég saumaði allt.  Ætlaði fyrst að láta hana sauma eitthvað, en sá að tíminn leyfði það ekki fyrir utan að ég notaði overlock vélina að mestu, sem er ekki fyrir börn. Svo klúðraði ég saman vettlingum í restina sem voru bara fyrir útlitið.

Afi hjálpaði líka við að setja tjullið fyrir augun, erfitt að líma niður tjull.
 

Ég gat notað sniðið af Hildas Hoodie hettupeysunni frá Ida Victoria, minnstu kvenstærðina, enda er daman orðin 10 ára. Ég breytti hettunni aðeins að framan til að geta sett bönd. Þetta heppnaðist sem sagt og allir glaðir. Svo hef ég heyrt að hún noti peysuna líka dags daglega.

mánudagur, 4. ágúst 2025

Cantaloupe sjal


Ég átti afgang af grænu Drops Air sem ég ákvað að nota í þetta litla sjal þegar mig vantaði eitthvað til að prjóna. Uppskriftin er frá Garnstudio og heitir Cantaloupe Shawl. Þetta garn var afgangur frá peysuprjóni, og ég lét ömmustelpuna sem fékk þá peysu líka fá sjalið.


 


Og af því að mér þótti svo gott að hafa það um hálsinn, þá keypti ég í annað sjal fyrir sjálfa mig. Passlega lítið til að hafa þegar ekki er of kalt en samt ekki nógu hlýtt.