Heildartala yfir síðuflettingar

þriðjudagur, 30. júlí 2013

Sumarfiðrildi

 

Mér finnst alltaf gaman að skreyta eftir árstíðum, ekki bara á hátíðum. Ég heklaði nokkur svona fiðrildi nýlega, úr bómullarafgöngum. Svo set ég þau hingað og þangað, í blómapotta, á salerniskassann, í gluggakistuna o.s.frv. Uppskriftin er frá Whispering Forest Design og fæst ókeypis á Ravelry, og heitir þar Sweet Butterfly.

 

fimmtudagur, 25. júlí 2013

Ungbarnasett

 

Ég eignaðist lítinn frænda þann 29. júní, og var búin að prjóna á hann þá. Ég gerði settið á 0-3/4 mánaða, og notaði uppáhaldsgarnið mitt, Lanett. Uppskriftin er frá Prjóna Jónu, og er hún á Facebooksíðu hennar.

 

mánudagur, 15. júlí 2013

Afgangateppi à la Arne&Carlos

 

Núna í júní prjónaði ég afgangateppi eins og þeir Arne&Carlos gera í bókinni Litríkar lykkjur úr garðinum.

Ég átti haug af smárestum af garni, flest áratuga gamalt, sem var ekki hægt að gera neitt með. Þó var ég búin að saxa aðeins á hann með teppinu sem glittir aðeins í í síðustu færslu.

Það er svo gott fyrir sálina að hreinsa svona upp. Ég fitjaði upp 250 lykkjur, og prjónaði svo þar til garnið var svo til uppurið. Ég skipti bara um lit þegar endinn var búinn. Teppið varð tæplega 2 metra langt. Grófleikinn var mismunandi, og stundum prjónaði ég úr tvöföldu.

Það þarf svona snillinga til að benda manni á svona einfalda hluti.

 

föstudagur, 12. júlí 2013

Blómapúði

Þennan púða sá ég fyrir löngu á blogginu Attic24, sem er mjög falleg síða. Garnið er Bomul og sport frá Gjestal. Ég heklaði hann reyndar úr uppraki af þremur öðrum púðaborðum sem mér fundust aldrei falleg.

Svo tókst mér að misskilja uppskriftina, og þá búin að ganga frá öllum endum, þannig að hann er heklaður úr mislöngum garnendum sem kostuðu mikinn frágang. En....ég er ánægð með hann, og það var gaman að hekla hann.

Mig langar að hekla annan úr garni sem skiptir sjálft litum, gæti trúað að það væri skemmtilegt.

Uppskriftin er HÉR.

 

mánudagur, 8. júlí 2013

Koddar

 

Áðan lauk ég við að sauma utanum tvo kodda til að hafa á hjónarúminu.

Svo langar mig að gera aðra minni til að setja fyrir framan. Er að leita að hugmyndum.

 

fimmtudagur, 4. júlí 2013

Góðir Íslendingar

Þessi löber minnir mig alltaf á 17. júní, enda ætlaði ég að vera búin með hann fyrir þjóðhátíðardaginn í ár. Það tókst ekki alveg, en það kemur annar dagur að ári.

Sniðið er frá Föndur.is og var það keypt í Quiltbúðinni á Akureyri.

Mér finnst alltaf gaman að þjóðlegum bútasaum.