Einhvern tíma á vafri mínu um netheima rakst ég á myndband þar sem kennt var að sauma svona pennaveski í gervi hákarla. Ég varð strax voða skotin í þeim og byrjaði á að sauma einn til prufu, sem heppnaðist ágætlega, þannig að ég skellti mér í að sauma handa ömmubörnunum fjórum. Ég hafði ytra byrðið eins á þeim öllum en mismunandi liti á efnunum innan í.
Uppskriftin gerir ráð fyrir rennilásum sem seldir eru í metratali og klipptir í rétta lengd og sleði settur á. Sá sem ég notaði er með mislitar tennur, kemur mjög flott út.
Ég fyllti hákarlana með trélitum, 24 stykki í hvern, og var nóg pláss eftir til að bæta öðru í. Hér eru þeir komnir í notkun hjá krökkunum, sem voru mjög ánægðir með þá. Merkti líka trélitina með ákveðnum lit fyrir hvert barn (sem reyndur yngri barna kennari) þannig að allir þekkja sitt.
Hér er prufustykkið sem ég byrjaði á. Það besta við þessa uppskrift er að það fylgir vídeó um hvernig á að sauma hann og sniðið er ókeypis.
Allt um það HÉR. Það var samt dálítið erfitt að láta munnvikin koma vel út þar sem tennurnar mætast í efri og neðri skolti, þó það tækist þokkalega hjá mér. En áður en ég hélt áfram með hina fjóra þá rakst ég á annað myndband þar sem búið er að endurhanna munnvikin og notaði ég þá aðferð, sem heppnaðist mjög vel.
HÉR er hún sýnd.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli