Heildartala yfir síðuflettingar

föstudagur, 29. mars 2024

Rennilásabuddur

Þessar buddur saumaði ég fyrir forvitnis sakir því mér finnst aðferðin svo skemmtileg. Ég hef rekist á þær nokkrum sinnum á netinu en ákvað að prófa að sauma þær þegar ég sá góðar myndir af aðferðinni í fb hóp Íslenska bútasaumsfélagsins.

Ég valdi að sauma í heilt efni, en það má líka nota efni sem búið er að setja saman úr bútum. Setti vatt og bak líka, og stakk það með tvíburanál, en það hef ég ekki gert áður svo ég muni. Stærðin á stykkinu hjá mér var 30x40 sm, en það fann ég bara út sjálf, hægt að ráða stærðinni sjálfur. Svo er skorið skáhallt frá vinstra, efra horni en skurðurinn látinn enda sem svarar ca. 1/3 af lengd hliðarinnar fyrir ofan neðra hægra horn (alla vega gerði ég það). Úr þessu stykki fást sem sagt tvær buddur, önnur stærri en hin.

Þá eru skurðarbrúnirnar á báðum stykkjum kantaðar með 2,5” strimli eins og maður væri að kanta bútasaumsteppi, saumað við á röngunni og stungið niður á réttunni. Því næst notaði ég aðra hliðina á rennilásalengju sem seld er í metratali og saumaði á skákantinn.

Loks setti ég sleða á lásinn og saumaði buddurnar saman á röngunni. Í þá stærri festi ég skáband með saumunum til að hylja saumförin, en sikksakkaði bara saumförin á þeirri minni því skáböndin taka pláss.

                                 Stærri buddan varð 19x19 sm og sú minni 12x14 að stærð.

 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli