Heildartala yfir síðuflettingar

sunnudagur, 24. nóvember 2024

Skólapeysur


Það var alveg kominn tími á að prjóna nýjar peysur á litla flokkinn minn. Nú eru börnin 5, 7 og 9 ára og ég þurfti að róa aðeins á önnur mið en venjulega eftir uppskriftum út af elstu stelpunum. Fyrr á árinu keypti ég bókina Skólapeysur sem Prjónafjelagið gaf út. Stærðirnar í henni eru fyrir 6-14 ára.


Þar valdi ég uppskriftina Selás til að prjóna eftir á stelpurnar. Ég var hins vegar með fínna garn en gefið er upp þannig í stað þess að fara eftir lykkjufjölda í stærð 10 ára fitjaði ég upp fyrir stærð 12 ára á þær elstu en hélt sídd á ermum og bol fyrir 10 ára. Það sama gerði ég hjá þeirri sjö ára, fitjaði upp fyrir 10 ára en hélt sídd fyrir 8 ára. Notaði uppgefna prjónastærð, no.6.


Þetta heppnaðist, allt passaði vel á þær. Hafði hálsmálið líka lægra og víðara en í uppskriftinni.


Mér hefur aldrei fundist gaman að prjóna upphækkanir með stuttum umferðum en þessi uppskrift bæði byrjar og endar á upphækkunum. Hins vegar fann ég íslenskt vídeó með aðferð sem gekk svona svakalega vel hjá mér að nota að upphækkanirnar urðu það skemmtilegasta í prjóninu.


Fimm ára pilturinn fékk peysu eftir uppskrift úr bókinni Prjónað af ást eftir Lene Holme Samsøe. Uppskriftin heitir Uppáhaldspeysa Sveins, stærð 6 ára.


Og hér eru allir komnir í peysurnar…..


Ég notaði Drops Air í stelpupeysurnar og prjóna no.6 og Drops Merino Extrafine í strákapeysuna. Öll börnin völdu sjálf lit fyrir sig.