Þetta var jólaprjónið mitt að þessu sinni og lauk ég við peysuna fyrir nokkru, en átti bara eftir að festa tölur.
Peysan er á sjálfa mig, mig langaði í gollu.
Það gekk ekki alveg þrautalaust að gera hana, ég valdi stærð eftir uppgefnum málum í uppskriftinni, prjónaði tæplega upp að höndum, setti lykkjurnar á band og mátaði og peysan var hólkvíð.
Ég taldi út að stærð small yrði í lagi á mig, en það skrítna var að prjónafestan mín var alls ekki út úr korti, en samt ekki alveg rétt.
Svo þá var bara að rekja upp og byrja upp á nýtt. Ég fitjaði upp á medium peysu, en tók svo úr í hliðum með jöfnu millibili þannig að við berustykkið myndi hún verða komin í stærð small.
Bolurinn er prjónaður fram og tilbaka en ermarnar í hring, þannig að ég notaði hálfu númeri grófari prjóna fyrir ermar. Ég prjóna lausar fram og tilbaka.
Garnið er Drops cotton merino, keypt í Gallery Spuna.
Tölurnar keypti ég í Rokku.
Prjónastærðin er 4, en 4,5 í ermum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli