Heildartala yfir síðuflettingar

þriðjudagur, 24. mars 2020

Bjálkakofi


Ein ömmustelpan hefur í sínum fórum gamalt bútasaumsteppi frá föðurbróður sínum sem ég saumaði fyrir u.þ.b. 25 árum. Hún notar það á rúmið sitt.


Mamma hennar bað mig því að sauma líka teppi handa bróður hennar til að hafa í hans herbergi.
Ég byrjaði milli jóla og nýárs og lauk því núna um daginn, tók þetta svona í skorpum.
Ég valdi bjálkakofa munstrið handa honum, og þó hann sé bara tæplega sjö mánaða, þá gerði ég stórt teppi handa honum, 1.37 x 2.07 m. Teppið sem systir hans er með er svipað að stærð.
Það er bara hægt að brjóta það þrefalt yfir rúmið til að byrja með, svo töfalt o.s.frv.


Ég stakk í öll saumför. Vildi ekki stinga meira til að halda því lipru og mjúku.
Ég saumaði allt með pappírssaumi.


Merkimiðann saumaði ég í útsaumsvélinni minni góðu. Gaman að prófa það.


Efnin eru bæði úr safninu mínu, og svo komst ég á útsölu hjá Panduro i Smáralind um áramótin og keypti töluvert af fínum efnum fyrir lítinn pening.


Og ég er alltaf jafn ánægð með mína frábæru saumavél, Husqvarna Epic 980Q sem ég keypti í Pfaff fyrir einu og hálfu ári.  
Teppið er frekar stórt, og ég þurfti stanslaust að vera að snúa því á meðan ég stakk það í fjórar áttir og þurfti að margdraga það allt undir arminn. 
Það var ekkert mál, því nóg er plássið.
Vélin getur líka geymt allar stillingar sem ég geri í ákveðnu verkefni, hún geymir þær í “Smart save” þannig að ef ég ætla að halda áfram í sama verkefni næst þegar ég kveiki á henni ýti ég á einn hnapp og hún opnar sig með þeim stillingum sem ég geymdi. 
Og yfirflytjarinn á Husqvarna vélum er sérviska mín, vil ekkert annað....en það er bara ég 😊

2 ummæli: