Heildartala yfir síðuflettingar

mánudagur, 25. apríl 2022

“Crazy” bútateppi með útsaumsívafi

Það höfðu safnast fyrir hjá mér ýmsar prufur úr útsaumsvélunum sem tóku pláss í skúffum en ég tímdi ekki að henda. Hvað gerir bútasaumari þá? Jú, býr til blokkir og gerir teppi. Flestar prufurnar voru reyndar úr Pfaff creative 1.5 vélinni, aðeins tvær úr nýju Sapphire 85 saumavélinni. Ég tók þær sem hægt var að nota og setti þær í miðjuna á “crazy quilt” blokk. Ákvað að finna blokkir í EQ8 forritinu og sauma með pappírssaum, hafði tvær gerðir sem ég raðaði upp til skiptis. Svo notaði ég enn einu sinni afganga en skipti efnunum í tvennt til að forðast að sama efni snertist í tveimur blokkum þegar ég saumaði þær saman.

Síðan valdi ég nokkra af þeim fallegu og fjölmörgu skrautsaumum sem eru í Epic 980Q vélinni til að stinga og notaði til þess Cotty 30 tvinna. Stungan varð að vera “crazy” líka, og svakalega var gaman að sitja við og klára þetta.

Merkimiðann aftan á saumaði ég að sjálfsögðu í útsaumsvélinni, og yfirleitt reyni ég að velja liti í myndina á miðanum sem passar við bakefnið. Það er skýringin á frekar skrítnu litavali hjá mér að þessu sinni, en bakefnið er mjög litríkt og skrautlegt.

 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli