Heildartala yfir síðuflettingar

laugardagur, 17. desember 2022

Demantamálun

Í sumar kom ég við í Freistingasjoppunni á Selfossi eins og ég geri oft, og á leið út úr búðinni rak ég augun í litlar pakkningar af demantamáluðum jólaref, kíkti á þær en fór svo bara út í bíl. Sneri samt við þegar ég var búin að hugsa málið aðeins, þetta var hræódýrt, á hálfvirði,  og ég ákvað að eiga þetta í handraðanum ef ske kynni að ömmustelpurnar hefðu einhvern tíma gaman að þessu. 

Einverju sinni í haust var sú yngsta, 5 ára, í pössun hjá mér, og ég sýndi henni þetta og varð hún strax mjög áhugasöm. Systir hennar, 7 ára, var líka mjög dugleg með sinn ref, og eftir 3-4 pössunarheimsóknir kláraðist refurinn.

Sú þriðja, 7 ára, vann líka við sinn ref af miklum áhuga. Hún dæsti oft þegar við vorum að byrja á þessu tvær saman og sagði: “Þetta er svo gaman….það er svo gaman að gera þetta með þér, amma”.  Mesta fjörið var þegar þær voru allar þrjár saman, en afköstin kannski ekki eins mikil þá. En allar myndirnar kláruðust í tæka tíð í desember.

Svo sat ég alltaf með þeim og demantamálaði sjálf. Ég mátti til með að prófa þetta líka og fékk mér þessi spjöld í Fjarðarkaupum.

Þessar Hello Kitty lyklakippur sá ég svo í Fjarðarkaupum og líka einhyrningakippurnar. Báðar hafa líka steina aftan á.

Nú á ég smá lager af lyklakippum, t.d. sæhestakippur sem sú yngsta bað mig að kaupa þegar hún frétti að þær væru til. Keypti líka litla prinsessulímmiða til að steina. Hlakka til að vera með þeim í þessu áfram.

Þegar ég keypti jólarefina í sumar greip ég líka með mér þennan jólasvein sem er 24x34 cm. Töluverð vinna að klára hann, var mest að vinna í honum þegar þær voru líka. Þeim fannst þetta ganga heldur hægt hjá mér, en voru mjög hvetjandi: “Amma, þú klárar þetta örugglega fyrir jól”. Og það gerði ég, eiginmaðurinn greip meira að segja í þetta stundum, og nú er þessi gamaldags jólasveinamynd búin, vantar bara svartan ramma.

 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli