Heildartala yfir síðuflettingar

sunnudagur, 28. desember 2025

Eyrnabönd


Ein ömmustelpan, tíu ára, afhenti mér þetta garn og bað mig um að prjóna eyrnaband á sig. Ég fitjað upp tíu lykkjur á prjóna nr. 10 og lét vaða, prjónaði bara þangað til það mátaðist passlegt á hana. Eina vesenið sem ég lenti í var að ganga frá endum og að sauma það saman því garnið er svo loðið að það er erfitt að draga það í gegn. Ráðið við því er að klippa pelshárin af aðalþræðinum og sauma svo. Þetta gerði ég við seinna hárbandið, þetta bleika, sem sú yngri, 8 ára, bað mig að prjóna á sig. Sú yngri er reyndar fyrirsæta á báðum myndum því hin var ekki viðlátin þegar ég myndaði.
 

Garnið heitir Sirdar Alpine og fæst í A4. Prjónastærðin sem er gefin upp er nr. 10 og uppskrift er engin.

laugardagur, 27. desember 2025

Jólajóla


Hér kemur smávegis jólalegt sem ég gerði í útsaumsvélinni. Reyndar saumaði ég þetta um og eftir síðustu jól en dró það að setja það á bloggið og fannst ekki passa að gera færslu um þetta þegar fór að draga nær páskum. Ákvað að bíða frekar næstu jóla.

 


Munstrin eru bæði fengin frá Embroidery Library. Ég minnkaði bollann aðeins í forritinu mínu en hann var  var full þéttur í útsaumi jafnvel þótt forritið fækkaði sporunum hlutfallslega. Það er miklu hepplegra að nota munstur eins og kransinn að ofan sem er miklu opnara eða þá eitthvað sem fyllir ekki svona þétt.



Þetta er líka jólamunstur, en blómin hefðu mátt vera í sterkari lit. Maður er alltaf að læra. Ég vil helst hafa viskastykki röndótt og reyni bara að finna munstur sem koma vel út í þeim. Svo þurfa þau ekki að vera glæný, það má alveg sauma í notuð viskastykki og handklæði.


Svo gerði ég smá jólatrésskraut sem prýðir annað jólatréð okkar í ár, eldgamalt tré frá tengdaforeldrum mínum sem ég hengi eingöngu skraut sem er handgert og heimagert. Þetta er líka frá Embroidery Library.

þriðjudagur, 23. desember 2025

(Jóla)músagangur


 Ég sá pakkningu með uppskrift og garni í þessar jólalegu mýs og fannst þær svo sætar að ég varð að prjóna þær. Auðvitað hafði ég barnabörnin í huga en ég hélt samt eftir þremur fyrir mig en leyfði þeim öllum að velja sér tvær hverju.



Uppskriftin sem fylgdi var íslensk þýðing úr norsku, en ég fór fljótlega yfir í frummálið því það voru slæmar villur í þýðingunni. Að öðru leyti gekk allt vel, ég notaði ullartróð, hvítt eða rautt eftir því sem við átti. Eyrun eru stífuð með sykurvatni en þau vildu samt vísa of mikið niður og fyrir augun svo ég tók nokkur saumspor í þau til að þau tylldu betur upprétt.



Sex ára ömmustrákurinn lék sér með mýsnar á ýmsan máta þegar hann fékk þær í hendur.

Uppskriftin er frá garnstudio.com og garnið heitir Fabel.