Heildartala yfir síðuflettingar

miðvikudagur, 1. júní 2022

Síðar peysur

Ég tók mig til um daginn og saumaði mér þrjár síðar peysur til að nota í sumar. Ekki það að ég eigi ekki nóg af prjónuðum peysum, mig langaði bara í þynnri og mýkri peysur.  Ég keypti snið sem ég hef lengi ætlað að eignast og saumaði prufupeysu úr efni sem ég keypti í töluverðu magni, hræódýrt, í Álnavörubúðinni í Hveragerði þegar hún var að hætta með efni. 

Sniðið smellpassaði, en það eina sem ég gat sett út á var að listinn að framan var heldur stuttur og kipraði peysuna aðeins kringum hálsmálið. Ég tók hann af, bætti 5 cm inni í hann og saumaði aftur á, og nú var hann miklu betri. Svo sleppti ég líka vösum sem fylgdu sniðinu, hef ekkert að gera við vasa á flíkum nema utanyfirflíkum eins og úlpum og kápum. Sniðið kemur í þremur síddum, og valdi ég þá síðustu.

Þótt þetta efni hafi verið ódýrt þegar ég keypti það, þá er það alveg þrusugott, og hef ég varla farið úr þessari gráu.

Næst var svo að gera aðra, verð að eiga bláa líka. Efnið í hana keypti ég í Litlu músinni og gerði mér ferð upp á Akranes til að kaupa það, á mjög erfitt með að kaupa efni án þess að koma við það fyrst. En efnin hjá henni eru mjög góð, og hef ég pantað tvisvar síðan og verið mjög ánægð. Þetta bláa er lífrænt bómullarjersey, mjög gott að vera í henni. Nota hana líka mikið.

Svo bætti ég við einni hvítri, passar vel að eiga eina slíka fyrir bjarta sumardaga. Efnið pantaði ég frá Litlu músinni og er það sams konar og bláa efnið.

Peysurnar voru saumaðar svo til eingöngu á overlockvélina, stakk bara axlarsauma og faldaði ermar í Epic vélinni.

Þetta spor úr Epic saumavélinni er mjög fínt til að falda jerseyefni og lokar kantinum að innan. Nennti ekki að taka fram coverlockvélina fyrir svona lítið.

Sniðið pantaði ég frá Ida Victoria í Noregi og tók það ekki nema viku að fá það í hús.  Huggulegt að fá svona fallegt kort með 🤍

 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli