Heildartala yfir síðuflettingar

föstudagur, 4. nóvember 2022

Handþurrkur

Þegar almennar sóttvarnir hófust fyrir bráðum þremur árum vegna covid og handþvottur og sprittnotkun voru nauðsynlegar varúðarráðstafanir reyndi maður að sjálfsögðu að hafa þetta í lagi á heimilinu líka. Ég tíndi til niðurklippt handklæði sem ég hafði faldað og rúllaði þeim saman og setti í körfu á baðvaskinn. Þannig gátu allir tekið sér hreint handklæði eftir handþvott ef þeir vildu. En þótt þessi tími sé liðinn þá mun ég ekki snúa til baka til þess þegar allir þurrkuðu sér á sama handklæðinu, það er hægt að velja þetta líka. Nú er ég búin að endurnýja tuskurnar, keypti hræódýr þvottastykki í Rúmfó og bróderaði í eitt hornið á þeim öllum. 

Barnabörnin hafa alltaf valið sér tusku og muna þá hver á hvað hverju sinni, og ein þeirra var úr bleiku handklæði sem ég átti sem stelpa, og var með stafnum mínum sem mamma hafði saumað á það. Yngsta ömmustelpan hélt sérstaklega upp á þessa. Þess vegna datt mér í hug að merkja þeim öllum eina handþurrku með upphafsstafnum í nafni þeirra.


Stafina fann ég í Quick Font forritinu, og ég notaði minnsta segulrammann, 10x10 cm, í verkefnið. Nauðsynlegt að eiga þá í öllum stærðum. Munstrin eru öll í Sapphire 85 útsaumsvélinni minni, og var þetta upplagt tækifæri til að prófa að sauma minnstu munstrin í henni.
 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli