Heildartala yfir síðuflettingar

þriðjudagur, 31. desember 2024

Chunky Twist eyrnabönd


 Fyrir fimm árum prjónaði ég eyrnabönd fyrir okkur stelpurnar í fjölskyldunni, sex stykki. Í haust bað ein ömmustelpan mig um að prjóna aftur hvítt eyrnaband fyrir sig, því trúlega hefur það gamla verið orðið of lítið. Það er hér að ofan. Uppskriftin heitir Chunky Twist og fæst á Ravelry.



Þegar ég svo prjónaði peysurnar á þær í haust átti ég nógan afgang í eyrnabönd í stíl við peysurnar. Heppilegt að það er gert ráð fyrir Drops Air í eyrnaböndin, sama garni og ég var með í peysunum.

miðvikudagur, 18. desember 2024

Strákavesti


Ég prjónaði vesti á ömmustrákinn eina til að vera í yfir hátíðirnar. Hann hefur gaman af því að vera fínn og herralegur.


Ég studdist við uppskriftina Smáravesti frá Ömmu Loppu að mestu leyti, en breytti stroffunum þannig að ég hafði eina og eina í stað þess að hafa tvær sléttar og tvær brugðnar. Með því móti gat ég haft fallega úrtöku í vaffinu í stað þess að leggja á misvíxl og sauma niður eins og uppskriftin gerir ráð fyrir.


 Ég fitjaði upp á stærð 5-6 ára, en drengurinn er fimm ára síðan í haust, og hafði síddina nær 6-8 ára stærðinni, því hann er frekar langur. 

Garnið er Dale Lille Lerke, blanda af ull og bómull, og prjónastærðin var nr. 4.

fimmtudagur, 12. desember 2024

Dúkkukjólar


Fyrir um ári síðan saumaði ég kjóla úr þessu efni á ömmustelpurnar þrjár. Sniðið heitir Jerseykjole med sving for barn og er einnig til í fullorðinsstærð. Það er meira að segja líka til í dúkkustærð.


Þegar ég sneið kjólana á stelpurnar passaði ég að sjálfsögðu að nýta efnið eins vel og ég gat. Og til að ekkert færi til spillis sneið ég eins mikið af dúkkufötum og hægt var úr smá bútum sem annars hefðu farið í ruslið. Svo geymdi ég þetta í marga mánuði og saumaði loksins í haust.



Ég fékk út úr þessu þrjá kjóla og einn skokk (sem ég er ekki búin að sauma) og nokkrar nærbuxur á dúkkurnar. Ef vel er að gáð liggur út og suður í þráðréttunni hjá mér, aðalatriði var að ná sem mestu út úr efninu. Kjóllinn er sem sagt úr dúkkusniðapakka frá Ida Victoria, sem ætlaður er fyrir Baby born, en í þessu tilfelli passaði hann vel á OG dúkkurnar. Nærbuxurnar eru úr sama pakka, og líka frá Kreativistine.