Heildartala yfir síðuflettingar

föstudagur, 31. október 2025

Fljúgandi gæsir


Þetta teppi varð til alveg óvart. Ég hef stundum mikla þörf fyrir að sitja bara við saumavél og sauma. Þess vegna var ég byrjuð að sauma litlar blokkir af fljúgandi gæsum sem ég vissi ekkert hvað yrði úr.
 

Þær voru (auðvitað) saumaðar með pappírssaumi og sniðið kom úr EQ8 forritinu mínu.


Þá gerðist það sem gerist næstum aldrei að ég ráfaði inn á nytjamarkað og kíkti á handavinnublöðin, fann blað frá 2004 frá McCalls og keypti það ásamt einhverju fleiru. Í þessu blaði var mynd af teppinu fyrir ofan og frásögn af því hvernig það hafði verið samvinnuverkefni kvenna sem allar komu með nokkra búta.


Ég fór nú að skoða bútana mína og sá möguleikana, taldi hversu margar gæsablokkir væru í teppinu í blaðinu og þeir reyndust vera 100. Það var því ekki um annað að ræða en að spýta í lófana, prenta út pappírssniðið og halda áfram að sauma. Svo teiknaði ég teppið í EQ8 og prentaði út vinnublað til að ruglast nú ekki við samsetninguna.


Eins og sjá má eru margir ljósir ferningar á milli gæsablokkanna. Ég fann efni sem ég keypti annað hvort á bílskúrssölu eða úr dánarbúi og var búið að klippa niður í stóra ferninga. Mér tókst að fá fjóra litla ferninga úr hverjum þessara stóru svo þeir nýttust vel. Að lokum hófst ég svo handa við að gera það sem ég hef ætlað lengi að prófa en það var að stinga að hluta í útsaumsvélinni, því mér fannst að það yrði að vera eitthvað fallegt í þessum blokkum. Þetta eru 40 ferningar, auk þess sem þríhyrningarnir á jöðrunum eru líka stungnir, stakk þá eins og þeir væru heilir en fór útfyrir á vattið og skar svo af. Þannig þurfti ég að setja teppið 60 sinnum á segulrammann og í vélina. Þetta gekk ótrúlega vel, ekkert klikkaði. Tók nokkra daga en varð líka léttara með æfingunni.


Efnin eru öll afklippur og afgangar sem hafa safnast upp og virðist aldrei klárast. Útsaumsmunstrið er frá Kreativ Kiwii. Svo tek ég fram að fyrst stakk ég meðfram öllum blokkunum á venjulegan hátt.


miðvikudagur, 22. október 2025

Vorflétta



Þetta er Vorflétta eftir Auði Björt. Hún kemur í tveimur stærðum og valdi ég þá minni. Í hana átti að duga ein 100 gr. hespa, 400 metrar. Það fór aðeins meira hjá mér, um 106 grömm, en það gerði ekkert til því ég var með 150 gr. hespu frá Handprjóni, en man ekki hvað hún hét. En ég er mjög ánægð með þetta smásjal og gaman að prjóna það.

 

Það er eitt af aðalsmerkjum Auðar Bjartar að sjölin og teppin líta eins út beggja megin, það er hvorki ranga né rétta.

Þegar þetta er skrifað er bleiki dagurinn, og ég skartaði því í fyrsta sinn í dag þegar ég útréttaði um borg og bý.

miðvikudagur, 17. september 2025

Haustverkin

Hjá mér eru haustverkin ekki sláturgerð eins og áður eða berjatínsla, heldur vettlingaprjón á barnabörnin.

 

Að þessu sinni notaðist ég næstum eingöngu við afganga frá vettlingaprjóni undanfarinna missera. Það urðu margar rendur og litaskipti og þar af leiðandi margir endar að ganga frá. En það er ekki leiðinleg vinna, bara handavinna eins og annað.


Ég safna afgöngum af sama grófleika saman í poka, og blanda ekki neinu sem þófnar saman við. Þetta urðu 9 pör, tvö fyrir hverja stelpu og þrjú fyrir strákinn. Prjónaði 5-7 ára stærð á strákinn en 8-10 ára stærð á stelpurnar þrjár. Svo var allt merkt inni í stroffinu eins og ég geri alltaf.


Ég fór eftir uppskriftinni Randalíus eins og ég hef gert undanfarið, kann hana utanað, og er hún frí á heimasíðu Storksins.

föstudagur, 12. september 2025

Saumað í viskastykki og fleira


Ég tók nokkur eldhúshandklæði og saumaði á þau með útsaumsvélinni. Ég hafði ekki prófað að sauma í svona “vöffluvefnað” og vildi prófa það. Þetta eru handklæði sem ég hef við vaskinn, keypt í Ikea.
 


Trikkið var að setja uppleysanlegt handklæðaplast yfir handklæðið, og þá flaut myndin ofan á efninu í stað þess að sökkva ofan í það.


Þá vatt ég mér í að sauma út í viskastykki sem er líka úr svona “vöffluefni”.  Ég sé svona viskastykki mikið notuð í útsaum, en þetta var í fyrsta sinn sem ég prófaði það. Þetta saumaði ég handa vinkonu okkar sem býr á samnefndri jörð fyrir norðan.


Ég tók líka nýja svuntu frá Ikea og setti skemmtilega mynd efst á hana. Það þarf að passa að gera ekki of mikið eða litríkt á svona röndótt efni. Bara eitthvað einfalt.

þriðjudagur, 19. ágúst 2025

Cosmo

Ein ömmustelpan mín, hún Auður Katla, er mikill aðdáandi Dandy’s World karakteranna. En hún er líka mjög skapandi stelpa og býr allt mögulegt til sem hún lærir á Youtube, og saumar á saumavél sem hún á sjálf ásamt bróður sínum, vél sem hin amma þeirra gaf þeim í vor.

Í sumar gerði hún þennan haus sem tilheyrir Cosmo úr Dandy’s World, en er hér karakter í Roblox leiknum.  Hún gerði hann alveg sjálf úr pappa sem var ekki auðvelt og var með alveg sér vinnuborð í bílskúr foreldra sinna. En hana vantaði hettubolinn sem persónan klæðist og bað mig um hjálp. 

Svo vel vill til að langamma hennar í móðurætt skildi eftir sig dálítið af ónotuðum efnum sem voru sett í mína vörslu og þar fann ég efni í peysuna. Þetta var samvinnuverkefni okkar Auðar, ég tók upp snið, hún klippti út, en ég saumaði allt.  Ætlaði fyrst að láta hana sauma eitthvað, en sá að tíminn leyfði það ekki fyrir utan að ég notaði overlock vélina að mestu, sem er ekki fyrir börn. Svo klúðraði ég saman vettlingum í restina sem voru bara fyrir útlitið.

Afi hjálpaði líka við að setja tjullið fyrir augun, erfitt að líma niður tjull.
 

Ég gat notað sniðið af Hildas Hoodie hettupeysunni frá Ida Victoria, minnstu kvenstærðina, enda er daman orðin 10 ára. Ég breytti hettunni aðeins að framan til að geta sett bönd. Þetta heppnaðist sem sagt og allir glaðir. Svo hef ég heyrt að hún noti peysuna líka dags daglega.

mánudagur, 4. ágúst 2025

Cantaloupe sjal


Ég átti afgang af grænu Drops Air sem ég ákvað að nota í þetta litla sjal þegar mig vantaði eitthvað til að prjóna. Uppskriftin er frá Garnstudio og heitir Cantaloupe Shawl. Þetta garn var afgangur frá peysuprjóni, og ég lét ömmustelpuna sem fékk þá peysu líka fá sjalið.


 


Og af því að mér þótti svo gott að hafa það um hálsinn, þá keypti ég í annað sjal fyrir sjálfa mig. Passlega lítið til að hafa þegar ekki er of kalt en samt ekki nógu hlýtt.




laugardagur, 12. júlí 2025

Teppi úr gömlum efnum


Ég á mikið af efnum og eru mörg þeirra áratuga gömul, og voru gamaldags á þeim tíma sem ég fékk þau.
Ég ákvað einhverntíma að halda þeim sér og sauma eitthvað úr þeim sérstaklega og mörg þóttu mér ekki falleg. En þegar þau eru svona saman hefur samsetningin ákveðið yfirbragð sem ég er sátt við.


Þetta munstur rakst ég á einhvers staðar á netinu og ákvað að nota það fyrir gamaldags efnin mín. Þetta eru 4 tommu ferningar, heilir og samsettir. Ég skar út með 4,5” og 2,5” stikum, mjög þægilegt að nota stikur í réttri stærð.


Bakið gerði ég líka úr sömu efnum til að minnka birgðirnar, samt er slatti eftir ennþá.


Merkið er á sínum stað, saumað í útsaumsvélinni eins og ég geri alltaf núorðið. Hafði það einfalt.


                         Una Lóa, yngsta ömmustelpan mín, aðstoðaði við myndatökuna í dag.

fimmtudagur, 19. júní 2025

Húsdýr


 Það er svo margt til hjá Kreative Kiwii sem gaman er að vinna í útsaumsvélinni. Ég féll alveg fyrir þessum kisum sem eru í rauninni bollamottur en geta líka verið bókamerki eða bara hvað sem er. Þær fóru til barnabarnanna enda búa þau á kattaheimilum.


Svo freistaðist ég til að sauma restina af bústofninum, gat ekki skilið þessi eftir.


Hér eru þau svo öll samankomin. Þette er mjög fljótlegt og skemmtilegt verkefni og fæst eins og áður sagði á síðu Kreative Kiwii.

þriðjudagur, 27. maí 2025

Vettlingar


 Einhvern tíma á útmánuðum prjónaði ég vettlinga á barnabörnin fjögur. Ég sá nýtt garn frá Drops í Gallery Spuna og langaði að prufa það. Finnst það koma skemmtilega út í svona vettlingum. Ég notaði uppskriftina góðu sem er frí á heimasíðu Storksins, Randalíus. Garnið heitir Fiesta.