Heildartala yfir síðuflettingar

fimmtudagur, 31. október 2024

🎃 👻 Hrekkjavaka 🕷️ 🕸️ 🎃

 

Það er alltaf svolítið gaman að gera smá hrekkjavökuskraut, sérstaklega þegar maður fylgist með erlendum facebook hópum. Kreative Kiwi er með mjög virkan og skemmtilegan hóp á fésinu og þar fær maður hugmyndir. Þessi graskersstæða kemur í nokkrum stærðum, mín er 45 sm á lengd. Þetta er sama munstur og í færslunni hér aðeins neðar en þar sleppti ég andlitunum.

 

Blýantaskrautið er úr filti. Margar í hópnum saumuðu svona til að gefa börnum, sem von var á að bönkuðu upp á, í staðinn fyrir sælgæti. Ég gaf barnabörnunum mínum fjórum það sem ég gerði, fjögur á mann.


Svo stóðst ég ekki þessar sætu vofur. Þær eru bókamerki, en ég setti líka lykkju efst.


Önnur útgáfa af graskerjunum, stök í mörgum stærðum, alveg upp í diskamottustærð.


Svo bætti ég fjórum laufblöðum eftir að ég var búin að sýna fimm önnur neðar á síðunni. Læt þau fljóta hér með.


Að lokum skelli ég líka þessu hjarta með, sem ég saumaði fyrir tæpum tveimur árum en hef aldrei sett hér inn á bloggið. Þá var ég nýbúin að eignast MySewnet forritið og var að prófa allt mögulegt skemmtilegt, þar á meðal þetta. Það er sem sagt hægt að setja texta inn í margvísleg form, ég valdi hjartað. Svo raðast orðin á ýmsan hátt með ýmsum leturgerðum, og þegar maður er ánægður með það sem maður sér er vinnan fólgin í að teygja og toga stafina þannig að orðin fylli upp í flötinn. 
Að sjálfsögðu valdi ég nöfnin á litla uppáhaldsfólkinu mínu. 

laugardagur, 26. október 2024

Tvær Erlur


Seint í sumar prjónaði ég tvö pör af vettlingunum eftir uppskriftinni “Erla” í bókinni Íslenskir vettlingar.
Ég hugsa að pörin af Erlu sem ég hef gert séu að verða hátt á annan tuginn. Flest þeirra hef ég prjónað úr Flora frá Drops, en eitthvað úr sokkagarni frá Vatnsnesi. 
Í þessa notaði ég Flora og prjóna nr. 2.


 

fimmtudagur, 10. október 2024

🍂 Haust 🍁


Ég hef gaman af því að skreyta smávegis eftir árstíðum. Þetta haustföndur varð til í útsaumsvélinni. Haustlitirnir í efnunum skila sér ekki alveg í útibirtunni, eru í rauninni dýpri og hlýrri.
Lengjan er um 45 cm, en hún kemur í styttri og nokkrum lengri útgáfum í munstrinu.


Hún er gerð í fjórum skrefum þar sem þarf að tengja allt saman jafnóðum.


 Svo saumaði ég nokkur laufblöð í tveimur stærðum, koma stærri líka. Þessi eru fín sem glasamottur eða bara til að fleygja á borð til að skreyta.  Bæði munstrin eru frá Kreativ Kiwi.

mánudagur, 30. september 2024

Dúkkukjólar


Einhvern tíma í sumar prjónaði ég þessa kjóla á dúkkurnar. Ég var ekki með sérstakar uppskriftir af þeim, heldur notaði ég uppskriftirnar af dúkkupeysum og kjól sem ég skrifaði um í þessari færslu, sem grunn til að miða við. Þar fæ ég lykkjufjöldann og skiptingu í ermar og bol, þar sem byrjað er að prjóna ofan frá. Svo er bara að hafa stuttar eða langar ermar, útvítt eða beint o.s.frv. Mjög auðvelt að spinna þetta upp jafnóðum. 
Allir kjólarnir eru hnepptir að aftan.


 

miðvikudagur, 18. september 2024

Húfur og ennisbönd


Ég fann dálítið sniðuga leið til að nýta afganga af jersey bómullarefnum. Ég keypti snið hjá Stofflykke af húfu, ennisbandi og hálskraga, og prófaði að sauma tvö bönd í barnastærð og eitt fullorðins og mátaði og fóru þau til þeirra sem þau pössuðu. Þurfti aðeins að aðlaga stærðir.

Svo fengu barnabörnin að velja sér efni í húfu eða ennisbönd eða bæði, eins mörg og þau vildu, allt eftir smekk.


Til urðu þrjár húfur og ellefu ennisbönd.


Húfurnar og böndin eru tvöföld, og í saumaferlinu er merkimiða stungið í saumfarið á réttum stað.

 

fimmtudagur, 5. september 2024

Vettlingar fyrir veturinn


Haustið nálgast og kominn tími til að prjóna skólavettlinga á barnabörnin fjögur. Ég hef undanfarið prjónað eftir uppskrift úr Leikskólafötum, en sú uppskrift nær aðeins upp í sex ára aldur. Börnin eru á aldrinum 5-9 ára og þurfti ég að finna aðra uppskrift. Hana fann ég á síðu Storksins. Hún er frí og heitir Randalíus. Mjög góð að fara eftir og rétt í stærðum.


Í vettlingana hér að ofan notaði ég Smart garn úr Rúmfatalagernum, endurnýjaði kynni mín við það, hef ekki prjónað úr því síðan synir mínir voru litlir fyrir nokkrum áratugum. Garnið í ljósu vettlingana er Merino Blend DK, keypt á sama stað. Prjónarnir voru nr. 4. Að sjálfsögðu saumaði ég merkimiða inn í hvern einasta vettling.


 

mánudagur, 26. ágúst 2024

Dúkkuföt


Ég hef nóg að gera við dúkkufatagerð. Hér eru það sumardress á dömurnar. Þær þurfa jú að eiga eitthvað til skiptanna.


Sniðið af þessum bolum fann ég frítt á netinu frá Liberty Jane Clothing. Koma í tveimur stærðum, 14” og 18”. Þeir eru alveg opnir að aftan og lokað með fínum riflás. Myndirnar framan á þeim skar ég sjálf út úr HTV vinyl í skurðarvélinni minni.


 Stuttbuxurnar gerði ég eftir sniði frá Kreativistine. Þær eru síðar á sniðinu en ég hafði þær bara stuttar.

þriðjudagur, 20. ágúst 2024

Melkorka


 Þessi mynd heitir Melkorka. Hún er frá Saumakassanum eins og aðrar þrjár myndir sem ég hef saumað. Ég splæsti henni á mig í vor þegar ég sá fram á að verða ein í húsinu í tæpa viku í júní þegar eiginmaðurinn og synirnir tveir færu í feðgaferð til Lissabon, gjöf frá sonunum til pabba síns í tilefni stórafmælis hans fyrir nokkru. Ég er ekki vön því að vera ein og eiginmannslaus heima svona lengi, og hlakkaði ekki til þess, en ákvað að eiga myndina tilbúna svo ég hefði eitthvað til að hlakka til, og byrjaði ekki á henni fyrr en þeir voru farnir. Hún er frekar fljótsaumuð, enda mikið um beinar, samsíða línur. Skemmtilegt verkefni.

miðvikudagur, 14. ágúst 2024

Hilda hoodie


 Ég saumaði mér þriðju flíkina eftir sniðinu Hilda hoodie frá Ida Victoria. Núna hafði ég hvorki hettu né háan kraga heldur bara mjótt stroff í hálsinn, og stytti ermarnar í 3/4 lengd því ég kippi alltaf ermum upp ef þær eru í fullri lengd og gengur misvel að halda þeim uppi. Þá er bara eins gott að stytta þær. Ég síkkaði þennan peysukjól eins og þá fyrri, en er jafnvel að spá í að stytta hann aðeins. Sé til með það. Kjóllinn er að öllu leyti saumaður á overlockvélina og efnið keypt í Noregi.