Gleðilegt ár!
Aftur kom yngri sonurinn og fjölskylda hans mér á óvart á jólunum með því að gefa mér alls konar hluti fyrir saumaskapinn. Hann keypti þetta á Massdrop eftir að hafa litið í kringum sig í saumaherberginu fyrir nokkrum mánuðum til að skoða hvað ég ætti. Hann er reyndar langt á undan mér í græjuspekúlasjónum, því ég er nýbúin að uppgötva þessar stikur, sem eru notaðar fyrir Ruler Foot Quilting, og var farin að spá í þær á Ebay, en þá er hann búinn að kaupa þær fyrir þónokkru síðan. Til að geta notað þær til að stinga teppi þarf sérstakan fót, sem Husqvarna Viking mun setja á markað snemma á þessu ári. Þegar ég uppfærði Epic vélina mína um daginn var búið að setja inn í hana sérstaka stillingu fyrir þannig fót, Free Motion Ruler Foot.
Hlakka til að prófa þetta.
Svo voru í pakkanum númeraðir títuprjónar, sem ég hef aldrei átt áður, alltaf notað gula límmiða til að merkja ef ég hef þurft að raða upp bútum og lengjum áður en ég sauma.
Svo er frábær fatakrítarpenni næstur á myndinni með mismunandi litum krítum. Notaði hann þegar ég sneið kjólana sem ég sagði frá í síðustu færslu.
Næstur er þarna límpenni fyrir efni, sem mig hefur svooo mikið vantað, en ekki átt.
Lengst til hægri er svo merkipenni með mjög fínum oddi sem er góður til að strika með í gegnum stensla o.fl., aðeins 0,9 mm.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli